Ull í bak og fyrir

Gömlu mennirnir í sveitinni fóru aldrei úr ullarnærfötunum. Voru í ullinni næst sér vetur, sumar, vor og haust. Í kulda og hita var ullin næst líkamanum. Ullin er eins og silkið, verndar bæði fyrir hita og kulda; kemur á jafnvægi, heldur að hæfilegum hita.

Ullin einangrar og temprar og hefur líka í sér efni sem eru góð fyrir líkamann, – t.d. olíu sem ku vera góð.

Í nýrri rannsókn var hópur fólks sem átti það sameiginlegt að vera með gigt og langvinna verki. Hópnum var skip í tvennt (eftir tilviljun), annar hluti (25)  klæddist ull næst sér alla daga, hinn hópurinn (25) ekki. Eftir sex vikur kom í ljós að fólkið í hópnum sem var í ullinni hafði minni verki og leið að mörgu leyti betur miðað við þau sem ekki  voru í ull næst sér. Munur á milli hópanna var ekki tilviljunarkenndur samkvæmt útreikningum þar um.

Sem sagt ullin hafði góð áhrif á fólk með gigt og verki. Rannsóknin fór fram í Tyrklandi og Dr. Kiyak birti vísindagrein um rannsóknina árið 2009 sem er hér á pdf formi:

Rannsókn um góð áhrif ullar (Kiyak, 2009).

http://web.ebscohost.com/ehost/pdfviewer/pdfviewer?sid=24a358de-1cb8-4f6f-9606-2440793f2e23%40sessionmgr4&vid=2&hid=21

Að bera sig vel

Að bera sig vel hljómar fallega og getur átt við að bera sig vel líkamlega, andlega og félagslega. ,,Hún ber sig bara vel” er sagt ef einhver hefur orðið fyrir skakkaföllum en lætur það samt ekki buga sig eða beygja og heldur áfram sínu striki.

Að bera sig vel er lykill að góðu baki. En það er kúnst að bera sig vel.

Á dönsku er sagt að maður hafi ,,holdningsfejl” þegar við erum hokin, bogin í baki eða luraleg að sjá. Íslenskir sjúkraþjálfarar tala stundum um rækjustellinguna þegar bogarnir og línurnar í hryggnum endurspegla ekki eðlilega stöðu líkamans.

Það er rækjustelling þegar axlirnar lúta fram á við en ekki aftur á við. Það er líka rækjustelling þegar maginn togast fram á við og togar um leið í mjóbakið og brjóstbakið sem bogna tilsvarandi og verður eins og dæld og þúfa á bakinu. Sveigjan í bakinu frá hálsi og að mjöðmum verður öfugsnúin og togar háls, axlargrind, maga og mjóbak í stöðu sem líkaminn gerir ekki ráð fyrir.

Stundum berum við okkur betur en efni standa til. Reynum að bera okkur vel en höfum kannski ekki forsendur, styrk og stjórn til að bera líkamann og halda honum uppi eins og eðli hann býður.

Að bera sig ve án þess að hafa styrk eða stjórn endar með ójafnvægi, vöðvar fara að taka að sér hlutverk sem þeim var ekki ætlað. Vöðvi sem hafur tiltekið hlutverk hleypur í skarðið fyrir annan vöðva sem ekki mætti til leiks. En af hverju mætti sá vöðvi ekki til leiks?

Það eru margir þættir sameiginlegir þeim sem glíma við ,,holdningsfejl”, rækjustellingar og tilheyrandi bakvanda. Eitt af því er að litlu vöðvarnir sem eru á djúpi næst hryggsúlunni eru hálf slappir eða hreinlega úr sambandi. Þegar allt leikur í lyndi eru þessir litlu vöðvar lagnir við að fínstilla sig eftir þörfum. Fínstilla sig eftir því sem hryggsúlan þarf. Styðja við og aðstoða hryggjarliðina við að hreyfa sig, vinna og hvílast.

Ef litlu, fíngerðu vöðvarnir við hryggjarliðina mæta ekki til leiks þegar á þarf að halda koma aðrir og stærri vöðvar til að bjarga málunum. Stóru vöðvarnir taka að sér vinnuna. Taka þetta bara með stóru skóflunni. Gera það sem gera þarf. Sjá um hreyfingarnar.  Þetta gengur kannski þokkalega ef ekkert mikið liggur við og ekkert sérstakt álag er á hryggnum. Gengur kannski vel ef litlu hryggjarliðirnir þurfa ekki sérstakan stuðning frá vöðvunum sem eru næstir þeim, þessum litlu fíngerðu og áhrifamiklum vöðvum.

Eftir tiltekinn tíma myndast ójafnvægi. Stóru vöðvarnir taka að sér flest verk við að bera okkur og halda okkur uppi en litlu vöðvarnir vinna ekki það sem þeim er ætlað. Hreyfingar og vöðvanotkunin verður ekki eins og líkaminn er hannaður til. Bingó – líkaminn fer að kvarta: ,,þetta gengur ekki svona, þetta þarf að leiðrétta”. Taugakerfið sendir út verki sem viðvörun; ,,það er villa í hreyfikerfinu, vinsamlega leiðréttið”.